Á þessu kjörtímabili hefur áfram verið haldið að skerða þá þjónustu sem Reykjavíkurborg veitir íbúum Grafarvogs. Norðanverður Grafarvogur hefur ekki farið varhluta af því. Þar hefur skóla verið lokað í Staðahverfi og geta börn á grunnskólaaldri því ekki sótt skóla í sitt hverfi líkt og áður var. Það var gert til þess að draga úr kostnaði hjá Reykjavíkurborg. Alltaf er gott að draga úr kostnaði en að byrja á grunnþjónustunni sem sveitarfélaginu ber skylda til að reka er óskiljanlegt, víða má spara í rekstri Reykjavíkurborgar án þess að það bitni á þjónustu við börn. Sparnaður kjörtímabilsins var því gerður með því að loka skóla í Grafarvogi.
Samkvæmt nýju aðalskipulagi Reykjavíkurborgar er fyrirhuguð þétting í Sóleyjarima, þar er nú heimild til þess að byggja fimm hæða fjölbýli. Víða má þétta byggð í Grafarvogi en að setja fimm hæða fjölbýlishús á þennan græna reit sem ekki er í samræmi við neina byggð í nágrenninu er ekki boðlegt. Þessu hafa íbúar mótmælt og við Sjálfstæðismenn gerðum það sömuleiðis en allt kom fyrir ekki og skipulagið var samþykkt. Við það tækifæri sagði Dagur B Eggertsson borgarstjóri „Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur til 2040 leggur grunn að kraftmeiri og grænni uppbyggingu borgarinnar en dæmi eru um í sögu hennar,“ . Ekki er auðvelt að sjá græna uppbyggingu í þessum áformum í Sóleyjarrima.
Stætó fór síðan í sparnað og jú viti menn það var gert með því að breyta leiðakerfinu í norðanverðum Grafarvogi og skerða þannig þjónustu við íbúa þar. Miklir peningar eru nú settir í hönnun á borgarlínu og er allt tal um komu hennar og gæði ekkert annað en hlægilegt þegar ekki er hægt að halda úti þeirri þjónustu sem Stætó er að sinna í dag. Á meðan verið er að tala um að bæta almenningssamgöngur með borgarlínu er þjónusta Strætó skert. Ef þjónustan sem strætó veitir er ekki góð þá gefur það auga leið að notendum mun ekki fjölga. Notendum mun því ekki fjölga hér í norðanverðum Grafarvogi samhliða þessum breytingum.
Gangbrautir, sorphirða, grendarstöðvar, þrif og umhirða, þar þarf að gera betur án þess þó að það kosti okkur skattgreiðendur mikið. Góð þjónusta skiptir öllu máli og Reykjavíkurborg getur svo sannarlega gert betur þegar kemur að Grafarvogi.
Valgerður Sigurðardóttir
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og íbúi í Grafarvogi.