GreinarLátum draumana rætast

07.03.220

 

Þessi orð eru yfirskrift menntastefnu Reykjavíkurborgar sem samþykkt var á kjörtímabilinu. Þrátt fyrir þessi flottu orð getum við gert betur þegar kemur að málefnum barna og fjölskyldna þeirra í Reykjavík. Það er ekkert mikilvægara en að hlúa vel að börnum og fjölskyldum þeirra því lengi býr að fyrstu gerð. Áföll sem við verðum fyrir í æsku jafnvel þau sem við verðum fyrir sem hvítvoðungar fylgja einstaklingum oft alla tíð. Aldrei má spara þegar kemur að málaflokki barna, við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að sinna börnum og foreldrum þeirra sem best.

Hvernig getur Reykjavíkurborg gert betur?

Hlúum að geðheilbrigði og styttum biðlista

Reykjavíkurborg verður að hlúa betur að geðheilbrigði barnanna okkar án þess þó að sjúkdómsvæða þeirra tilfinningar. Stytta verður biðlista hjá sérfræðingum í skólaþjónustu en þar eru mörg hundruð börn á bið, hver mánuður sem barn er á biðlista eftir þjónustu getur valdið skaða sem fylgir barninu alla ævi. Andleg líðan unglinga var ekki góð fyrir komu kórónuveirunnar og því miður hefur orðið gríðarleg röskun á þeirra lífi. Það er eflaust ekki auðvelt að vera ung manneskja og alast upp á tímum kórónuveirunnar þar sem öll félagsleg samskipti eru allt önnur en við eigum að venjast. Unglingarnir hafa sjálfir verið duglegir að kalla eftir breytingum og aukinni fræðslu um geðheilbrigði. Því miður hefur ekki verið orðið við þeim óskum. Við verðum að hlúa betur að unga fólkinu okkar, við getum t.d. kenna geðrækt í skólum. Það þarf ekki síður að huga að því að bæta geðheilbrigði þeirra sem starfa í skólum. Starfsfólk leik- og grunnskóla hefur unnið undir miklu álagi síðustu tvö ár. Þau hafa unnið þrekvirki með því að halda skólakerfinu gangandi. Innan úr skólakerfinu heyri ég að áhyggjur eru uppi um að langtímaveikindi muni aukast verulega ef ekki verði hugað betur að heilsu starfsmanna.

Læsi

Samkvæmt PISA könnunum er hlutfall barna sem ekki geta lesið sér til gagns alltaf að hækka. Þar eru drengir í meirihluta, yfir 34% drengja geta ekki lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla. Á þessu verðum við að taka og byrja að greina strax hvað veldur og bregðast við. Brottfall drengja úr námi er alltaf að aukast og slæm staða drengja er orðið stórt vandamál í öllu menntakerfinu þar sem karlmenn eru um 32% nýnema í háskólum. Það er í raun ótrúlegt hvað þessar staðreyndir fá litla athygli bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Þar verður að gera breytingu á, greina hvað veldur og ráðast strax í aðgerðir, samfélaginu öllu til heilla.

 

Leikskólar

Þegar síðustu tölur voru kynntar þá voru 706 börn 12 mánaða og eldri á biðlista eftir plássi í leikskólum Reykjavíkur. Meðalaldur barna við innritum á leikskóla Reykjavíkur er 29 mánaða. Úr þessu verður að bæta, það er sárt að sjá á eftir barnafjölskyldum flytja í önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu einfaldlega af því að þar er betri þjónusta við þær. Reykjavík sem höfuðborg getur gert betur, leikskólinn er fyrsta skólastigið og mikilvægt er að við eflum það. Gerum störf á leikskólum eftirsóknarverðari t.d með því að bæta kjör þeirra sem þar starfa og höfum samráð við félag leikskólakennara og ríkið um hvernig má gera betur þegar kemur að mönnunarvandanum.

Dagforeldrar

Dagforeldrum hefur fækkað jafnt og þétt á síðustu árum og það er ekki vegna þess að eftirspurn eftir þeirra þjónustu sé ekki til staðar. Við verðum að passa að hlúa betur að stétt dagforeldra og jafna greiðsluþátttöku foreldra sem greiða fyrir vist hjá dagforeldrum við greiðslu barns á sama aldri á leikskóla.

Viðhald til skammar

Börn hafa verið að veikjast á kjörtímabilinu vegna þess að viðhald hefur skort í fjölda ára. Málefni Fossvogsskóla hafa verið mikið í umræðunni, í því máli var talað um móðursýki. Það er óásætanlegt að trassaskapur verði til þess að börn og starfsfólk veikist vegna óheilnæms húsnæðis. Fjöldi barna dvelur nú ekki í sínum skólum og á það bæði við leik- eða grunnskóla vegna þess að búið er að loka skólunum eða hluta af þeim út af óheilsusamlegum aðstæðum. Þessum börnum er nú keyrt á milli hverfishluta eða borgarhluta. Vitanlega veldur það miklum óþægindum fyrir þau, fyrir starfsfólkið sem er að vinna í aðstæðum sem eru flóknar og fyrir foreldra þeirra.

Aðgerða og sinnuleysi hefur ríkt þegar kemur að aðbúnaði í leik-og grunnskólum, strax í upphafi kjörtímabils var ljóst að bregðast varð við en það var ekki gert. Þegar ég ræddi málefni Fossvogsskóla í upphafi kjörtímabilsins var ekkert hlustað og þrátt fyrir ítrekað ákall á samráði við foreldra var ekki brugðist við fyrr en fjöldi veikra barna og starfsmanna var orðinn mikill. Það er ekki hægt að skreyta sig í lok kjörtímabilsins með áætlunum um það að setja peninga í viðhald á skólahúsnæði á næsta kjörtímabili líkt og nú hefur verið gert, það er ekki trúverðugt frá þessum meirihluta. Grunnþjónustan okkar á alltaf að ganga fyrir ekki bara rétt fyrir kosningar

Á þessum málum þurfum við að taka til að gera skólakerfið okkar betra og efla það þannig látum við drauma fleiri barna í Reykjavík rætast.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *