GreinarSögulegt tekjugóðæri og grunnskóla í Grafarvogi lokað

05.01.220

Það kom að því að meirihlutinn í Reykjavík fékk hugmynd um það hvernig eigi að spara peninga og sýna ráðdeild í rekstri. Það á að loka skóla ! Loka heilum grunnskóla þannig að hverfi þar sem búa yfir 1100 manns verða án þeirrar lögbundnu grunnþjónustu sem sveitarfélaginu ber skylda til þess að veita. Það er skiljanlega ekki sátt með þessa ákvörðun meðal íbúa í Grafarvogi. Síðustu sameiningar voru árið 2012. Þá sparaðist ekki króna, þær voru illa skipulagðar. Sérstaklega var varað við því ef það myndi aftur þurfa að fara í að sameina skóla að gera það þá aldrei í flýti. Fyrstu hugmyndir um að loka og sameina skóla komu fram í mars á þessu ári. Þetta ferli hefur því ekki verið langt, nákvæmlega eins og árið 2012.

Milljarður í skatta og gjöld

Auðvitað vilja íbúarnir hafa skólann áfram í hverfinu, enda er Staðahverfið flott hverfi þar sem býr fólk sem skilar sínu í formi skatta og gjalda til Reykjavíkurborgar. Það má leiða að því líkum að íbúar í Staðhverfinu greiði um 1 milljarð í skatta og gjöld árið 2019 til Reykjavíkurborgar miðað við útsvar, fasteignamat, lóðamat og önnur gjöld. Það er því ekki furða þó að íbúarnir séu reiðir, svekktir og sárir. Þeir eru vissulega að leggja sitt af mörkum til borgarsjóðs. Þeir búa líka í hverfi þar sem er í gildi deiliskipulag, sem er ígildi lagasetningar. Skólinn er bundinn í deiliskipulag og því verið að brjóta á íbúum í hverfinu með því að loka skólanum. Reykjavíkurborg gæti því hugsanlega verið að skapa sér skaðabótaskyldu gagnvart íbúum í hverfinu.

Lokað í fimm ár til þess að greiða fyrir þrjár framkvæmdir

Afrek um ráðdeild í rekstri þessa meirihluta eru til dæmis endurgerð Hlemms og Bragginn sem kostuðu okkur skattgreiðendur 700 milljónir. Það gera 3,5 ár í lokun fyrir skólann í  Staðahverfi. 3,5 ár til þess að ná upp í kostnað við þessi tvö verkefni. Ef við bætum síðan við torginu sem er verið að gera fyrir utan heimili borgarstjóra og kostar 300 milljónir þá þarf skólinn að vera lokaður í fimm ár til þess að borga fyrir þessar þrjár framkvæmdir.

Þetta er sorgleg forgangsröðun á nýtingu peninga okkar skattgreiðenda á tímum sögulegs tekjugóðæris í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2019.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *