GreinarVið viljum grunnskóla ekki puntstrá eða pálmatré

05.01.220

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi og foreldri barns í Kelduskóla Vík:

Fyrirhugaðar sameiningar og lokun á grunnskóla í norðanverðum Grafarvogi hafa ekki fengið góðar undirtektir hjá íbúum. Hér kraumar mikil óánægja. Síðast árið 2012 sameinuðust þessir skólar, og það þrátt fyrir hörð mótmæli foreldra.

Sú sameining var gerð með tilheyrandi raski fyrir börn og foreldra í Grafarvogi en í kjölfar sameiningaaðgerðanna var ýmsu lofað. Öllum foreldrum var tjáð að allt ætti eftir að verða svo miklu betra sem að sjálfsögðu hefur ekki gengið eftir, því miður! Raunar er það þannig að rykið hefur ekki enn sest eftir síðustu sameiningar og því óskiljanlegt að nú sé komið fram með enn eina tillöguna sem skerðir þá lögbundnu þjónustu sem Reykjavíkurborg ber að veita börnunum okkar.

Hér í Grafarvogi viljum við ekki pálmatré eða puntstrá. Öðru nær biðjum við bara um eitt; að halda þeirri grunnþjónustu sem til staðar er í dag fyrir börnin okkar. Hér þurfum við hins vegar að berjast fyrir sjálfsagðri þjónustu með kjafti og klóm. Það er ekki laust við að maður spyrji sig: Hvers vegna þurfum við að berjast fyrir grunnþjónustu þegar meirihlutanum finnst í góðu lagi að byggja mathallir, planta puntstrám og gæla við það að rækta pálmatré í Vogabyggð? Hvers vegna er hægt að tala um það á tyllidögum að efla þjónustu í nærumhverfinu um leið og þjónustan er rifin af börnum og foreldrum sem búa í norðanverðum Grafarvogi?

Það er ljótur leikur að leika sér að framtíð barna

Kelduskóli Korpa sem til stendur að loka hýsir 61 nemenda en sex bekkir eru í skólanum. Skólinn getur fullsetinn hýst 170 börn. Ef skólinn væri með börn frá fyrsta til tíunda bekk má gera ráð fyrir því að í skólanum yrðu yfir eitt hundrað nemendur. Hins vegar hafa ekki verið kynntar tölur um það hversu mörg börn búa í Staðarhverfinu á skólaaldri. Þannig má leiða líkur að því að þessi tala sé mun hærri. Þá er fyrirhuguð þétting byggðar á svæðinu sem ekki hefur verið reiknuð inn í þessar tölur. Byggja á um 100 íbúðir á þessu svæði. Þar með væri þessi skóli að öllum líkindum fullsetinn. Jafnframt hefur spurningunni um aldurssamsetningu í þessum hverfum ekki verið svarað.

Eftir að hafa farið yfir alla þætti málsins finnst mér augljóst að hér eru borgaryfirvöld að gera alvarleg mistök. Tölurnar um barnafjölda sem hafa verið kynntar fyrir foreldrum eru til að mynda vanreifaðar. Ljóst er að þær eru alls ekki unnar eftir öllum þeim forsendum sem þarf að horfa til þegar kemur að sameiningu.

Við í Grafarvogi höfum lengi upplifað okkur sem afgangsstærð, hér er hægt að skera niður grunnþjónustu ef það hentar borgaryfirvöldum. Við erum ekki einhverjar tölur í Excelskjali. Við erum fólk, borgarbúar sem skilum góðum tekjustofni fyrir Reykjavík.

Það virðist vera lenskan þegar kemur að því að þjónusta hverfið okkar, Grafarvog, að líta svo á að hægt sé að beita niðurskurðarhnífnum í okkar hverfi fremur en öðrum hverfum borgarinnar. Með öðrum orðum þegar að kemur að því að skera niður er mjög gjarnan ráðist beint á þá grunnþjónustu, sem eftir er, í hverfinu okkar. Það er ekki lengur í boði. Ég segi hingað og ekki lengra! Það er ljótur leikur að leika sér að framtíð barnanna okkar með endalausum tilfærslum þeirra á milli skóla! Látið kyrrt liggja, látið börnin okkar fá að njóta sín í sínu nærumhverfi!

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2019

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *