GreinarÞú skuldar 902 þúsund

05.01.220

Ekki alls fyr­ir löngu kom í Markaðnum í Frétta­blaðinu virki­lega áhuga­verð sam­an­tekt. Þar var farið mjög vel yfir skulda­stöðu Reykja­vík­ur­borg­ar. Þar kom fram, líkt og við sjálf­stæðis­menn í borg­ar­stjórn höf­um verið segja allt frá kosn­ing­um, að skuld­astaða Reykja­vík­ur­borg­ar væri mjög slæm. Skuld­ir hafa hækkað jafnt og þétt síðustu tíu ár og nú er svo komið að hver og einn Reyk­vík­ing­ur skuld­ar 902.156 þúsund. Skuld­ir hafa því vaxið gríðarlega á síðustu tíu árum, um meira en 70%, samt vant­ar inn í þess­ar töl­ur skuld­ir utan efna­hags­reikn­ings. Þegar þær eru tekn­ar með versn­ar staðan mun meira, lengi get­ur vont versnað á því svo sann­ar­lega við um fjár­mál Reykja­vík­ur­borg­ar. Það er undra­vert þegar skuld­astaða borg­ar­inn­ar er skoðuð að heyra meiri­hlut­ann tala um að þessi gríðarlega slæma skuld­astaða komi til út af Covid. Hér er tíu ára upp­safnaður vandi sem er byrjaður að bíta fast.

Hraðari skulda­aukn­ing en tekju­aukn­ing

Síðustu tíu ár hef­ur ríkt óráðsía í fjár­mál­um borg­ar­inn­ar og þar hef­ur pen­ing­um verið eytt hraðar en þeir hafa komið inn. Það er merki­legt, þar sem sögu­legt tekjugóðæri hef­ur verið. Það sjá það all­ir að vand­inn er gríðarleg­ur og hann varð ekki til á nokkr­um mánuðum líkt og meiri­hlut­inn held­ur núna fram. Vissu­lega hef­ur Covid áhrif á stöðuna en því miður var Reykja­vík­ur­borg það illa rekið sveit­ar­fé­lag fyr­ir að búið var að senda ósk um neyðaraðstoð til rík­is­ins strax á vor­dög­um, enda aug­ljóst að fjár­hags­leg óstjórn hef­ur verið í sveit­ar­fé­lag­inu um langt skeið. Ríkið nýtti upp­sveiflu síðustu ára til að greiða skuld­ir veru­lega niður, en á sama tíma hef­ur borg­in aukið skuld­ir sín­ar þrátt fyr­ir ein­stakt góðæri.

Ríkið komi til bjarg­ar

Sú eina lausn sem meiri­hlut­inn í Reykja­vík hef­ur er að hrópa á hjálp, það hafa þau verið að gera síðan á vor­dög­um. Hvert tæki­færi er nýtt til þess að pressa á rík­is­sjóð að koma til bjarg­ar. Það á að taka úr sjóðum allra lands­manna til að borga fyr­ir bruðlið hjá Reykja­vík­ur­borg. Þegar þú reyn­ir að fá rík­is­sjóð, sem hef­ur sýnt ein­staka ráðdeild síðustu ár, til að bjarga þér, reyn­ir maður þá ekki að sýna ráðdeild sjálf­ur? Það er ekki gert í Reykja­vík, hér finnst borg­ar­stjóra það vera til marks um hóf­semi að hálfri millj­ón hafi verið eytt í áfengi á veit­ingastað á sama tíma og rekst­ur borg­ar­inn­ar stend­ur á brauðfót­um. Hvernig er hægt að rétt­læta kostnað á borð við þenn­an og ætl­ast svo til þess að ríkið opni sína sjóði og komi til bjarg­ar? Hvernig er hægt að rétt­læta áfram­hald­andi upp­bygg­ingu í miðbæn­um fyr­ir millj­arða þegar nán­ast eng­inn skóli í Reykja­vík get­ur rekið sig réttu meg­in við núllið af því fjár­magn til skóla er ár eft­ir ár skorið við nögl?

Skulda­dag­ar

Það er því ljóst að komið er að skulda­dög­um og þeir verða nú­ver­andi meiri­hluta í Reykja­vík erfiðir því par­tíið er búið líkt og kem­ur fram í um­sögn sem Reykja­vík­ur­borg sendi Alþingi í vor. „Vand­inn snýst hins veg­ar ekki aðeins um skamm­tíma­fjár­mögn­un­ar­vanda held­ur stefn­ir í al­ger­lega ósjálf­bær­an rekst­ur til margra ára. Þessa ósjálf­bærni er ekki hægt að leysa með hækk­un leyfi­legr­ar skatt­lagn­ing­ar eða þjón­ustu­gjalda eða með stór­felld­um niður­skurði í út­gjöld­um borg­ar­inn­ar sem varða að lang­mestu leyti leik- og grunn­skóla og vel­ferðarþjón­ustu. Hefðbundn­ar aðferðir eru ekki í boði. Það er ekki hægt að leysa þetta með stór­felld­um lán­veit­ing­um þar sem veltu­fé frá rekstri mun ekki til margra ára fram und­an standa und­ir af­borg­un­um.“ Þegar kem­ur að skulda­dög­um verður það sárt, meiri­hlut­inn sem stýr­ir Reykja­vík­ur­borg hef­ur barið sér á brjóst og látið sem allt sé í himna­lagi. Það verður sárt að viður­kenna mis­tök, sem þau vilja að all­ir lands­menn taki síðan þátt í að borga.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. október 2020.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *