Ekki alls fyrir löngu kom í Markaðnum í Fréttablaðinu virkilega áhugaverð samantekt. Þar var farið mjög vel yfir skuldastöðu Reykjavíkurborgar. Þar kom fram, líkt og við sjálfstæðismenn í borgarstjórn höfum verið segja allt frá kosningum, að skuldastaða Reykjavíkurborgar væri mjög slæm. Skuldir hafa hækkað jafnt og þétt síðustu tíu ár og nú er svo komið að hver og einn Reykvíkingur skuldar 902.156 þúsund. Skuldir hafa því vaxið gríðarlega á síðustu tíu árum, um meira en 70%, samt vantar inn í þessar tölur skuldir utan efnahagsreiknings. Þegar þær eru teknar með versnar staðan mun meira, lengi getur vont versnað á því svo sannarlega við um fjármál Reykjavíkurborgar. Það er undravert þegar skuldastaða borgarinnar er skoðuð að heyra meirihlutann tala um að þessi gríðarlega slæma skuldastaða komi til út af Covid. Hér er tíu ára uppsafnaður vandi sem er byrjaður að bíta fast.
Hraðari skuldaaukning en tekjuaukning
Síðustu tíu ár hefur ríkt óráðsía í fjármálum borgarinnar og þar hefur peningum verið eytt hraðar en þeir hafa komið inn. Það er merkilegt, þar sem sögulegt tekjugóðæri hefur verið. Það sjá það allir að vandinn er gríðarlegur og hann varð ekki til á nokkrum mánuðum líkt og meirihlutinn heldur núna fram. Vissulega hefur Covid áhrif á stöðuna en því miður var Reykjavíkurborg það illa rekið sveitarfélag fyrir að búið var að senda ósk um neyðaraðstoð til ríkisins strax á vordögum, enda augljóst að fjárhagsleg óstjórn hefur verið í sveitarfélaginu um langt skeið. Ríkið nýtti uppsveiflu síðustu ára til að greiða skuldir verulega niður, en á sama tíma hefur borgin aukið skuldir sínar þrátt fyrir einstakt góðæri.
Ríkið komi til bjargar
Sú eina lausn sem meirihlutinn í Reykjavík hefur er að hrópa á hjálp, það hafa þau verið að gera síðan á vordögum. Hvert tækifæri er nýtt til þess að pressa á ríkissjóð að koma til bjargar. Það á að taka úr sjóðum allra landsmanna til að borga fyrir bruðlið hjá Reykjavíkurborg. Þegar þú reynir að fá ríkissjóð, sem hefur sýnt einstaka ráðdeild síðustu ár, til að bjarga þér, reynir maður þá ekki að sýna ráðdeild sjálfur? Það er ekki gert í Reykjavík, hér finnst borgarstjóra það vera til marks um hófsemi að hálfri milljón hafi verið eytt í áfengi á veitingastað á sama tíma og rekstur borgarinnar stendur á brauðfótum. Hvernig er hægt að réttlæta kostnað á borð við þennan og ætlast svo til þess að ríkið opni sína sjóði og komi til bjargar? Hvernig er hægt að réttlæta áframhaldandi uppbyggingu í miðbænum fyrir milljarða þegar nánast enginn skóli í Reykjavík getur rekið sig réttu megin við núllið af því fjármagn til skóla er ár eftir ár skorið við nögl?
Skuldadagar
Það er því ljóst að komið er að skuldadögum og þeir verða núverandi meirihluta í Reykjavík erfiðir því partíið er búið líkt og kemur fram í umsögn sem Reykjavíkurborg sendi Alþingi í vor. „Vandinn snýst hins vegar ekki aðeins um skammtímafjármögnunarvanda heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára. Þessa ósjálfbærni er ekki hægt að leysa með hækkun leyfilegrar skattlagningar eða þjónustugjalda eða með stórfelldum niðurskurði í útgjöldum borgarinnar sem varða að langmestu leyti leik- og grunnskóla og velferðarþjónustu. Hefðbundnar aðferðir eru ekki í boði. Það er ekki hægt að leysa þetta með stórfelldum lánveitingum þar sem veltufé frá rekstri mun ekki til margra ára fram undan standa undir afborgunum.“ Þegar kemur að skuldadögum verður það sárt, meirihlutinn sem stýrir Reykjavíkurborg hefur barið sér á brjóst og látið sem allt sé í himnalagi. Það verður sárt að viðurkenna mistök, sem þau vilja að allir landsmenn taki síðan þátt í að borga.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. október 2020.