Hvernig má það vera að börn sem stunda nám í Fossvogsskóla séu í höfð í skóla þar sem ítrekað finnst hættuleg mygla? Þrátt fyrir þær aðgerðir sem farið hefur verið í í skólanum fannst hættuleg mygla þar í desember. Fyrst núna er verið að greina frá þessum niðurstöðum sem er algerlega óásættanlegt fyrir þau börn sem eru veik og verða samkvæmt lögum að sækja skólann. Er hér verið að reyna að hylma yfir óþægilegt mál fyrir Reykjavíkurborg með því að draga það að birta niðurstöður? Það er einnig merkilegt að skýrslur sem Verkís hefur unnið vegna Fossvogsskóla hafa ekki verið birtar heldur aðeins minnisblöð úr þeim.
Tvær hættulegar tegundir
Þegar skólanum var lokað var það meðal annars vegna tveggja hættulegar tegunda af myglu, kúlustrýnebba og litafrugga sem getur valdið alvarlegum veikindum. Við síðustu sýnatöku kom í ljós að þessi mygla er enn til staðar í skólanum. Það voru tekin sýni á 14 stöðum og það fannst kúlustrýnebba á 11 stöðum og litafrugga á fimm stöðum ásamt fjölda annarra tegunda af myglu. Í skólanum fannst ekki mikið af myglu sem er að koma utan frá, heldur er þessi hættulega mygla að grassera innan skólans í því byggingarefni sem þar hefur verið notað. Almennt séð telst vöxtur myglusveppa innanhúss vera heilsuspillandi eins og staðfest er í leiðbeinandi reglum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um inniloft í sambandi við raka og myglu. Það er því ljóst að Reykjavíkurborg fær falleinkunn fyrir það hvernig staðið hefur verið að málum við Fossvogsskóla. Það er hræðilegt að áfram sé að finnast mygla í skólanum, að börn þurfi að vera í umhverfi sem er heilsuspillandi og séu orðin alvarlega veik vegna myglu. Hvað á þetta að ganga lengi svona? Ég hef heyrt það áður að fara eigi að taka á þessu, ég einfaldlega held að Reykjavíkurborg ráði því miður ekki við þetta verkefni. Þegar búið er að eyða yfir 500 milljónum í viðgerðir á húsnæði þá býst maður við betri árangri. Það er algerlega óásættanlegt að hættulegar myglutegundir séu að finnast í skólanum eftir allan þennan tíma og alla þessa peninga sem farið hafa í endurbætur. Hefur ekki verið farið eftir þeim ráðleggingum sem gefnar hafa verið af sérfræðingum við úrbætur á skólanum? Það er spurning sem Reykjavíkurborg þarf að svara.
Reykjavíkurborg ræður ekki við verkefnið
Það ætti að vera orðið öllum ljóst að Reykjavíkurborg ræður ekki við þetta verkefni. Reykjavíkurborg hefur ekki náð að tryggja börnum og kennurum í Fossvogsskóla heilsusamlegt vinnuumhverfi. Barátta foreldra barna í Fossvogsskóla hefur tekið um þrjú ár og stendur enn. Það er dapurt að foreldrar þurfi að leiða þessa baráttu þegar skýrt er sagt á vefsíðu Reykjavíkurborgar hver ábyrgð skóla- og frístundaráð sé : „Gætir þess að leikskólar, grunnskólar, frístunda- og félagsmiðstöðvar og frístundaheimili á vegum borgarinnar búi við fullnægjandi húsnæði og að annar aðbúnaður sé fyrir hendi.“ Kennarar og börn búa ekki að fullnægjandi húsnæði í Fossvogsskóla, foreldrar hafa orðið að berjast fyrir því að húsnæðið sé rannsakað á viðunandi hátt, berjast fyrir sjálfsögðum réttindum barna sinna. Það er skýr skylda okkar sem sitjum í skóla- og frístundaráði að bregðast við þegar upp koma mál líkt og í Fossvogsskóla.
Hvaða áhrif hefur mygla á börn til framtíðar
Stóra spurningin núna er hins vegar hvaða áhrif mun þetta hafa til framtíðar á þau börn sem eru veik og munu önnur börn veikjast áður en búið er að taka á þessu. Þar sem skýrt er kveðið á um að það sé skylda borgarinnar að búa börnum og starfsfólki húsnæði sem er fullnægjandi hver er þá réttur þeirra barna og starfsmanna sem hafa verið í húsnæði sem hefur ekki verið heilsusamlegt? Er Reykjavíkurborg skaðabótaskyld gagnvart þeim sem hafa veikst? Og hvernig á núna að taka á þeim mikla vanda sem er í Fossvogsskóla?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. mars 2021.