Ríkisstjórn Íslands hefur hafið löngu tímabærar viðræður við Reykjavíkurborg um byggingu nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu. Því miður hafa þær viðræður aðeins horft til þess að reisa nýjan leikvang í Laugardalnum. Hvers vegna eru ekki aðrir kostir skoðaðir?
Þegar á að verja milljörðum af skattpeningum er mikilvægt að skoða hvaða kosti við höfum. Gætum við reist þjóðarleikvang á öðrum stað á höfuðborgarsvæðinu sem jafnvel myndi þjóna stærra hlutverki og ekki kosta jafn mikið?
Það er öllum ljóst að það verður dýrt og erfitt að byggja á núverandi svæði. Laugardalurinn er gróinn og áralangar stórbyggingarframkvæmdir í nágrenni við útivistarsvæði, skóla og sundlaug munu valda miklu raski. Við Egilshöll í Grafarvogi og upp að Vesturlandsvegi er mikið af óbyggðu landsvæði og þar er hægt að fara strax í uppbyggingu á meðan að í Laugardalnum þarf að fara í kostnaðarsamt niðurrif áður en hægt er að byrja að byggja upp. Það er ekki ofmælt að byggingarkostnaður gæti orðið 20% lægri við það að byggja á ósnertu landi en í Laugardalnum. Nýr þjóðarleikvangur í knattspyrnu í Laugardal kallar líka á nýjan frjálsíþróttavöll. Einnig myndi flutningur þjóðarleikvangs í knattspyrnu búa til aukið rými fyrir Þrótt og Ármann til að þróa sína aðstöðu til hagsbóta fyrir fjölskyldur í hverfinu.
Þurfum við ekki að spyrja okkur hvort uppbygging nýs þjóðarleikvangs inni í miðri borg sé besti kosturinn, verður ekki að skoða aðrar staðsetningar vel? Hjarta íslenskrar knattspyrnu hefur slegið í Laugardalnum í 63 ár og á meðan hafa orðið ótrúlegar breytingar á okkar samfélagi. Breytingar sem verður að taka tillit til í þeirri uppbyggingu sem er fram undan.
Ný ferðamálastefna var samþykkt árið 2020 fyrir Reykjavíkurborg og þar er fjallað um mikilvægi þess að auka ráðstefnuferðamenn í Reykjavík. Samhliða uppbyggingu við Egilshöll væri hægt að reisa þar ráðstefnuhótel, vera með veitingastaði og ýmsa þjónustu. Slík fjárfesting gæti lækkað framlag skattgreiðenda og styrkt rekstur leikvangsins heilmikið eins og hugmyndir voru uppi um fyrir nokkrum árum. Auðvelt er að skapa gott aðgengi að Vesturlandsvegi og því ekki flókið að tengja nýjan þjóðarleikvang við almenningssamgöngur.
Mikilvægast þegar kemur að þessu þarfa verkefni er að spurt sé, koma aðrir staðir til greina, myndi önnur staðsetning ef til vill verða til þess að lyfta íslenskri knattspyrnu hærra, þjóna stærra hlutverki og kosta okkur skattgreiðendur minna?
Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. janúar 2021.