Það er að mörgu að huga í fallega hverfinu okkar og ýmislegt sem betur má fara. Í þessum pistli langar mig að vekja athygli á nokkrum málum sem ég sem borgarfulltrúi hef lagt til að Reykjavíkurborg lagfæri í hverfinu okkar.
Fyrsta fremst má ég til með að nefna umferðaröryggi. Skýrsla sem hverfisráð Grafarvogs gerði á umferðaröryggi í Grafarvogi var virkilega vel unninn og hef ég lagt til í skipulags- og samgönguráði að ráðist verði í endurbætur á öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í samræmi við ábendingar úr skýrslunni. Ólíkt sveitarfélögum í kringum okkur þá hefur Reykjavíkurborg ekki sinnt því að setja upp gangbrautir. Þess í stað er notuð skilgreiningin gönguþverun. Gönguþveranir hafa ekki sebramerkingar á götu, eins og flestir þekkja gangbrautir, og þar er ekkert skilti sem gefur til kynna að þar sé gangandi eða hjólandi umferð. Gönguþverun er ekki til samkvæmt umferðarlögum og skapar gríðarlega hættu. Þessu vil ég breyta enda mikilvægt að börnin okkar geti gengið örugg yfir götur í hverfinu.
Strandvegur og Gufunesbær
Í skýrslunni um umferðaröryggi voru einnig lagðar til breytingar á Strandvegi, þar sem bent var á aðrar lausnir heldur en umferðakodda sem þar eru. Lagði ég fram í skipulags- og samgönguráð tillögu um að taka umferðakoddana og finna aðra lausn sem henta myndi á Strandvegi. Þeirri tillögu var hafnað sem er áhugavert í því ljósi að jafnvel þótt svo að gripið hafi verið til þess ráðs að koma fyrir umferðarkoddum þá aka 40% ökumanna yfir löglegum hámarkshraða á veginum. Þess vegna mun ég leggja fram nýja tillögu þar sem lagt verður upp með að finna aðrar lausnir til að takmarka hraðann.
Einnig lagði ég fram tillögu þess efnis að salernisaðstaða verði sett upp við Gufunesbæ. Þar sem svæðið umhverfis Gufunesbæ er gríðarlega fjölsótt og ekkert aðgengi er að salernum á svæðinu eftir lokun frístundamiðstöðvarinnar. Einungis þeir hópar sem hafa pantað afnot af svæðinu utan opnunartíma geta fengið aðgang að salernum með því að starfsmaður Gufunesbæjar sé á staðnum og er þá greitt fyrir slíka þjónustu. Því var það lagt til að komið verði upp aðstöðu sem börn og fullorðnir hafi aðgang að eftir opnunartíma Gufunesbæjar.
Hverfisráð og lóð leikskólans Hamra
Um áramótin verða hverfisráðin endurvakinn en þau hafa ekki verið starfrækt síðan núverandi meirihluti tók til starfa. Samkvæmt þeim tillögum sem liggja á borði starfshóps um hverfisráðin munum við í Grafarvogi fá fimm fulltrúa í hverfisráð. Tveir munu verða kjörnir fulltrúar, tveir valdir með slembivali og fulltrúi íbúasamtaka Grafarvogs munu sitja í ráðinu.
Þá ber jafnframt að vekja athygli á því að færanleg kennslustofa var fjarlægð af lóð leikskólans Hamra sem stendur í Hamravík þann 15. júlí síðastliðinn. Ekkert hefur gerst á lóðinni síðan þá og stendur hún ófrágengin. Í skóla- og frístundaráði, þar sem ég er fulltrúi, vakti ég athygli á því að ótækt er að lóðir þar sem börn eru að leik séu ófrágengnar í marga mánuði enda er verið með því að bjóða hættunni heim.
Ég vona svo sannarlega að meirihlutinn taki vel í þessar tillögur mínar og ráðist verði í úrbætur á þessum atriðum sem nefnd eru í þessum pistli mínum. Endilega verið dugleg að senda á mig upplýsingar um það sem betur má fara í hverfinu okkar og ég mun koma þeim áfram innan borgarkerfisins og upplýsa ykkur um stöðu mála hér í Grafarvogsblaðinu.
valgerdur.sigurdardottir@reykjavik.is
Greinin birtist fyrst í Grafarvogsblaðinu 22. nóvember 2018.