Í dag á fundi borgarstjórnar þá munum við Sjálfstæðismenn leggja fram tillögu þess efnis að fallið verði frá því að þrengja að vaxtarsvæði Borgarholtsskóla í nýju aðalskipulagi sem samþykkja á í dag. Um þau áform hefur skólameistari skólans Ársæll Guðmundsson tjáð sig í Fréttablaðinu, en þar segir „Bygging hjúkrunarheimilis á þessum stað er vægast sagt glapræði,“ segir Ársæll. Hann gagnrýnir ekkert samráð borgarinnar við íbúa Grafarvogs né hann sem skólameistara Borgarholtsskóla og segir engin svör að fá neinstaðar. Ársæll segist hafa hrópað eftir samtali í mörg ár, „ég er algjörlega hundsaður.“ Þessu viljum við Sjálfstæðismenn breyta og leggjum það til í dag að fallið verði frá þessum áformum. Svæði er hjartað í Grafarvogi og það er ótrúlegt að eiga ekkert samráð við samfélagið í Grafarvogi þegar gerðar eru jafn stórar breytingar sem verða til þess að stærsti vinnustaður Grafarvogs hefur ekki lengur sömu tækifæri og áður til þess að stækka.
Korpuskóli verði opnaður á ný
Við leggjum líka til að Korpuskóli verði opnaður á ný. Sem er auðvitað hálfgerð þversögn því þó svo honum hafi verið lokað fyrir nemendum í Grafarvogi þá hefur hann verið „ opinn“ nánast alla daga frá því honum var lokað árið 2020. Því þar hafa verið börn úr öðrum skólum sem flúið hafa lekavandamála og myglu í sínum skólum. Það er algerlega galið að foreldrar keyri börnum sínum úr sínum hverfum í skóla á meðan foreldrar úr öðrum hverfum koma keyrandi með sín börn í Staðahverfið til þess að stunda sitt nám þar. Því er mikilvægt að hefja uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á þeim reitum sem kynntir voru fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2018 og eru staðsettir í kringum Staðahverfið í Grafarvogi. Þannig fjölgum við börnum í hverfinu og getum boðið börnum úr hverfinu að sækja skóla í sínu nærumhverfi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. október 2021.