Fagmenntuðu starfsfólki fækkar stöðugt í leikskólum Reykjavíkurborgar. Það eru því færri einstaklingar sem bera hitann og þungann af menntun barnanna okkar á þessu skólastigi. Starfsmannavelta er gríðarleg og mikill tími fer í það að þjálfa upp nýtt starfsfólk. Þetta aukna álag leiðir af sér álagstengd veikindi sem eru sífellt að verða algengari hjá leikskólakennurum.
Reykjavíkurborg rekur 62 leikskóla og fer fagmenntuðu starfsfólki ört fækkandi. Dæmi eru um að aðeins einn fagmenntaður starfsmaður hafi verið við störf á leikskóla hér í borg. Það er ekki boðlegt enda skýrt kveðið á um það í lögum að 2/3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skulu í höndum menntaðra leikskólakennara enda er leikskólinn fyrsta skólastigið þar sem grunnur er lagður að framtíð barna í námi, skapandi starfi og leik.
Óviðunandi ástand er því í mörgum leikskólum Reykjavíkurborgar vegna manneklu. Það á eftir að ráða í 62 stöðugildi og 59 börn hafa ekki fengið vistun í ár þrátt fyrir fögur loforð meirihlutans um hið gagnstæða. Meirihlutinn hefur komið málum þannig fyrir að hvorki er hægt að taka á móti börnum, sem þó hefur verið lofað plássi í vistun, né er hægt að halda uppi lögbundnu og faglegu starfi innan leikskólanna vegna manneklu.
Er Reykjavíkurborg undir stjórn Dags B. Eggertssonar hreinlega hæf til að reka leikskólana í höfuðborginni? Meirihlutinn horfist ekki í augu við vandann, mætir ekki manneklunni með raunhæfum lausnum og reynir svo að spara peninga á kostnað barnanna með því að taka þau inn á seinni stigum.
Reykjavíkurborg mun brátt þurfa að kalla leikskóla sína gæsluskóla þar sem faglegt starf dregst svo ört saman vegna manneklunnar – og án nokkurs viðnáms af hálfu meirihlutans. Leikskólarnir eru ekki geymslustaður, þeir eru menntastofnun og það ástand sem skapast hefur á vakt meirihlutans bitnar verst á börnunum okkar. Nágrannasveitarfélögum okkar gengur vel að manna sína leikskóla með leikskólakennurum og því mætti ætla að ekki séskortur á fagmenntuðu starfsfólki – það fæst bara ekki til að starfa á leikskólum Reykjavíkurborgar.
Það þýðir heldur ekki fyrir Dag B. Eggertsson og meirihlutastjórn hans í borginni að stæra sig af því að hafa fyllt ungbarnadeildir leikskólanna í haust þegar eldri börn bíða enn eftir plássi – með enga lausn í sjónmáli. Mikill fjöldi barna hefur ekki fengið pláss á leikskólum eða í frístund eftir skóla í ár þrátt fyrir að ástandið fyrir yngri börnin hafi skánað lítið eitt frá fyrri árum. Það er bara ekki nóg – þeir sem enn bíða hlusta ekki á slíkar skýringar og vilja lausn sinna mála strax. Meirihlutinn hefur haft fjölda ára til að kippa þessu í liðinn og mæta vanda foreldra. Foreldrar vilja aðgerðir en ekki fögur loforð – þeir vilja gjörbreytt ástand í dagvistunarmálum. Hættum að gera það sama og búast við annarri niðurstöðu – breytum í borginni.
Greinin birtist á frettabladid.is 29. september.