Það er þungbært að fara aftur að lifa við skert frelsi. Ekki bara þurfum við öll að aðlaga okkur að nýjum veruleika, veruleika sem ekkert okkar átti von á að þurfa að upplifa. Veruleika sem við lásum að hluta til um í sögubókum, heimsfaraldur. Við neyðumst til að útiloka okkur frá hlutum sem gefa lífinu mikið gildi. Það að fara í heimsókn á hjúkrunarheimili, knús, hitta vini, fara út að borða, fara út í búð, fara á tónleika, fara í leikhús, fara í sund og ótal aðrir hlutir sem flest okkar gerðu og voru svo sjálfsagðir.
Lífið í heimsfaraldri
Við bregðumst öll við þessum nýja veruleika á ólíkan hátt, öll erum við að reyna að gera okkar besta. Ég hef miklar áhyggjur af andlegri heilsu okkar Íslendinga og tel að við verðum að ráðast í aðgerðir sem miða að því að sem flestir geti leitað sér hjálpar. Áður en þetta ástand skapaðist voru margir sem áttu um sárt að binda, börn jafnt sem fullorðnir. Við erum með viðkvæma hópa sem eiga ekki jafn auðvelt og mörg okkar með það að gera bara gott úr þessu. Af þessum hópum hef ég þungar áhyggjur. Við getum komist í gegnum þennan brimskafl með samhentu átaki þar sem við gefum andlegri heilsu þjóðarinnar sérstakan gaum.
Eflum þjónustu utan stofnanna
Það er mikilvægt að efla þjónustu utan stofnanna enda ekkert mikilvægara en að mæta fólki strax, grípa inn í og sinna vandanum áður en þörf verður á stofnanaúrræði. Þrátt fyrir að vel sé unnið að geðheilbrigðismálum hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu þá eru þar biðlistar eftir þjónustu. Það er ólíðandi sér í lagi núna á tímum heimsfaraldurs að bið sé eftir geðheilbirgðisþjónustu. Það þarf að grípa þá einstaklinga sem þurfa aðstoð strax. Einstaklinga sem mögulega hafa misst vinnu, flosnað upp úr námi, einstaklinga sem þjást og hafa misst alla von vegna ástandsins. Þetta verðum við að gera í samstilltu átaki og gera það án þess að sjúkdómavæða tilfinningalega erfiðleika fólks sem gengur í gegnum ótta og eðlilegar tilfinningar. Við eigum sterka grasrót úrræða þar sem sýnt hefur verið fram á gríðarlega góðan árangur. Í heimsfaraldri þurfum við því meira en nokkurn tíma áður að vinna öll saman og styrkja mun frekar og efla úrræði þar sem er opið aðgengi. Við verðum að styrkja þau úrræði þar sem fólk fær hjálp strax, úrræði þar sem fólk lendir ekki á biðlista. Þannig getum við komist yfir mikinn vanda og hjálpað gríðarlega mörgum að taka áfram þátt í lífinu.
Því vil ég skora á alla ráðamenn þjóðarinnar að fara að huga virkilega að andlega þættinum í þessum heimsfaraldri, meira en nú þegar hefur verið gert, enda er fátt mikilvægara en geðheilbrigði heillar þjóðar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. ágúst 2020.