GreinarFramtíðarsýn fyrir Grafarvog

05.01.220

Þegar horft er til framtíðar þá er það augljóst að Grafarvogur og næsta nágrenni hans er það svæði í Reykjavík sem á eftir að taka hvað mestum breytingum á komandi árum. Hér höfum við byggingarland til framtíðar, það sést hvað best þegar skoðaðar eru loftmyndir af Reykjavík. Það má því leiða að því líkur að þétting byggðar muni fara fram að miklu leyti í Grafarvogi. Það er skemmtilegt að velta upp hvaða kosti við höfum, hvar okkur hugnast t.d. að halda í græn svæði og hvar við viljum  byggja.

Verndum svæðið fyrir botni Grafarvogs

Grafarvogur ber nafn sitt af bænum Gröf sem stóð innst í Grafarvoginum og þar fellur líka í Grafarvog Grafarlækur.  Landið fyrir botni Grafarvogs við Grafarlæk er mjög fallegt, það er grænt svæði sem við Grafarvogsbúar eigum að fara fram á að verði óbyggt. Við sem búum í Grafarvogi búum í miklu návígi við náttúruna og það er mikilvægt að fast verði áfram haldið í græn svæði þegar kemur að þéttingu byggðar. Miðja höfuðborgarsvæðisins mun koma til með að færast nær okkur í Grafarvoginum með áframhaldandi þéttingu byggðar allt í kringum okkur.

Byggð í Geldinganesi og Viðey

Það eru ekki margar nýjar hugmyndir undir sólinni og hugmyndir um byggð í Geldinganesi og Viðey eru það ekki heldur. Sambærilegar hugmyndir hafa oft verið reifaðar. Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að halda þeim á lofti enda miklir möguleikar á því að skapa spennandi búsetuúrræði í Geldinganesi og Viðey, samfélag sem væri allt annað en það sem við þekkjum í miðborg Reykjavíkur. Það er mjög grunnt frá Gufunesi yfir í Viðey og því má auðveldlega tengja Viðey við Grafarvog. Í Viðey væri hægt að skapa samfélag sem væri spennandi viðbót við þær byggingar sem eru nú þegar fyrirhugaðar í Gufunesi. Þar væri t.d. hægt að hafa lágreista byggð, í gömlum stíl, þar sem umferð bifreiða væri takmörkuð. Geldinganesið býður svo upp á frábæra möguleika í uppbyggingu, þar líkt og í Viðey væri lágreist byggð spennandi kostur.

Eins og ég nefndi í upphafi þá er fyrirséð að Grafarvogur og næsta nágrenni hans mun taka miklum breytingum enda er hér mikilvægt byggingarland. Þess vegna er jákvætt og ekki síður mikilvægt að velta fyrir sér alls kyns hugmyndum um eigið nærumhverfi enda þurfum við öll að hafa skoðanir á skipulagsmálum í Grafarvogi.

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *