GreinarAukum hagkvæmt húsnæði fyrir almennan markað

05.01.220

Þegar horft er til framtíðar þá er það augljóst að Grafarvogur og næsta nágrenni hans er það svæði í Reykjavík sem á eftir að taka hvað mestum breytingum á komandi árum. Í Grafarvogi höfum við byggingarland til framtíðar, það sést hvað best þegar skoðaðar eru loftmyndir af Reykjavík. Það má því leiða að því líkur að þétting byggðar muni fara fram að miklu leyti í Grafarvogi og nágrenni hans, þar er Keldnalandið í lykilhlutverki. Sjálfstæðisflokkurinn mun leggja til á fundi borgarstjórnar í dag að borgarstjórn samþykkir að gera breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem heimilar íbúðabyggð í Keldnalandinu annars vegar og Örfirisey hins vegar þar sem m.a. verður gert ráð fyrir uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir almennan markað.

Samkeppni um íbúa

Reykjavíkurborg er í mikilli samkeppni við nágrannasveitafélögin, þar er gríðarleg uppbygging og vöxtur margra þeirra er ævintýralegur. Því miður gilda ekki sömu lögmál um Reykjavík og vöxtur sveitarfélagsins er langt frá því að vera í líkingu við það sem er að gerast í sveitarfélögunum í kringum okkur. Íbúafjölgun í Reykjavík hefur verið undir landsmeðaltali síðustu ár. Í Reykjavík hefur fólksfjölgun verið í kringum 2% á ári, en á Selfossi hefur fólksfjölgun verið á bilinu 6-7%. Í Reykjavík verðum við að fjölga íbúum og gera borgina fjölskylduvæna og trygga búsetu. Því þarf að gefa verulega í í íbúða uppbyggingu. Í Reykjavík þarf að byggja 1.830 íbúðir árlega til ársins 2040 svo mætt sé þeirri þörf sem augljóslega er. Það gerum við með því að skipuleggja fjölbreytt svæði til þess að hefja stórfellda uppbyggingu á.

Keldnalandið og Örfirisey

Það eru ekki margar nýjar hugmyndir undir sólinni og hugmyndir um byggð í Keldnalandinu og Örfirisey eru það ekki heldur. Sambærilegar hugmyndir hafa áður verið reifaðar. Þar eru miklir möguleikar á því að skapa spennandi búsetuúrræði. Þarna er hægt að skapa spennandi  samfélag sem mun gera Reykjavíkurborg að eftirsóttasta sveitarfélagi á landsvísu til þess að búa í. Uppbygging á Keldnalandinu og Örfirisey væri ákveðið skref í því að snúa vörn í sókn fyrir Reykjavíkurborg.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. september 2020.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *